Síður

1/29/2013

Erfiðir kúnnar, afgangar og föndur...

Byrjaði daginn á frábæru námskeiði um erfiða kúnna og kvartanir ásamt góðum kaffibolla. Þetta var ekta svona námskeið sem hjálpar ekki bara í vinnunni heldur einnig í daglegum samskiptum. Það er alveg með ólíkindum hversu langt maður kemst á því einu að sýna skilning. Bara svona þúst ... almennt í lífinu. Ég er og hef alltaf verið meðvituð um það að reyna að setja mig í annarra manna spor. Það getur virkað bæði vel og illa, maður verður að passa sig á því að verða ekki meðvirkur en að sama skapi er maður töluvert kurteisari ef maður reynir að átta sig á því að hvað manneskjan á móti manni er að ganga í gegnum. Svona námskeið hefðu allir gott af því að fara á, kannast flestir við að vera annaðhvort dónalegir eða þurfa að taka á móti dónalegheitum, sumir kannast jafnvel við bæði....



Í hádeginu fékk ég mér svo einn þann besta pestórétt sem til er að mínu mati! Uppskriftina fékk ég hér. Þennan hef ég eldað ansi oft og fæ aldrei leið á honum, hann er líka temmilega léttur og ennþá betri daginn eftir. Plús það að það er fáránlega auðvelt að elda hann.

*Veit ekki alveg hvernig það verður að lifa án kjúklings í mánuð*


Þá lýkur dagbók Margrétar í bili. 

Ég hef verið að viða að mér allskonar föndurverkefnum og er að skipuleggja smá á næstunni þannig að endilega fylgist með! 

Þangað til getiði dáðst að krukkuföndurskipulaginu mínu. Tók að vísu ekki margar myndir en þetta gefur ykkur smá hugmynd. Náði bara í allar krukkurnar mínar og flokkaði eftir efni. Gæti ekki verið einfaldara og nú er töluvert einfaldara að grípa í föndrið þegar andinn kemur yfir. 



Þangað til næst. 
Jákvæðnisföndurkveðjur.

1/27/2013

Af prinsessum og innblæstri

Þetta er búið að vera miiikið löt helgi þannig að pósturinn í dag verður tileinkaður fallegum heimilishugmyndum. Ég er og hef alltaf verið mikið fyrir að skreyta í kringum mig. Ég er líka alveg breytióð. Snéri öllu við í gamla herberginu á nokkurra mánaða fresti. Nú er það aðeins erfiðara þegar maður er í íbúð en í staðinn er ég bara alltaf að breyta öllu í hillunum og færa litlu hlutina til. Þetta er eiginlega smá bilun...

Hérna koma nokkrar skemmtilegar hugmyndir sem ég væri alveg til í að sækja smá innblástur í.

Ég er voðalega hrifin af því að umkringja mig með minningum í formi ljósmynda af vinum og vandamönnum. Þetta finnst mér skemmtileg hugmynd á langa veggi sem maður er í vandræðum með til dæmis.

Mynd fengin héðan

Fáránlega brilliant hugmynd!
Mynd fengin héðan

Elska bókakróka, það er mission að eiga góða lesaðstöðu, verður kannski ekki alveg svona en kósí skal það vera!
Myndir fengnar héðan og héðan

Er vandræðalega skotin í seríum yfir rúmi eða allavega í svefnherberginu. Það er alveg svona prinsessufílíngur í þessu sem er ekki beint minn stíll en það er eitthvað sem heillar. Ætti kannski ekki að segja frá því en ég er enn með hvítu jólaseríurnar uppi. Það er bara ennþá svo dimmt þannig að það má...
Myndir fengnar héðan og héðan

Mynd fengin héðan

Jæja ... þetta var innblástur / draumapóstur helgarinnar. 
Vonandi verður mánudagurinn ykkar frábær, er alveg staðráðin í því að gera minn besta mánudaginn í þessari viku! 

Þangað til næst.
Prinsessukveðjur.

1/22/2013

Kókos og vanilla

Mér finnst alveg hrikalega gott að nota allskonar skrúbba. Fyrir nokkru síðan prófaði ég að búa til mína eigin skrúbba og mér fannst það heppnast svo vel að ég hef ekki keypt skrúbb síðan. Að mínu mati mýkja þeir húðina meira og svo er auðvitað bara plús að þeir eru ekki stútfullir af allskyns aukaefnum!

Ég var einmitt að klára mína í kvöld þannig að ég ákvað að búa bara til tvær tegundir og deila uppskriftinni (ef uppskrift skyldi kalla) með ykkur.

Fyrri skrúbburinn er alveg hrikalega einfaldur, en það er bara kókosólia og svo salt eða sykur, grófleikinn fer eftir smekk hvers og eins. Það er ótrúlega góð og sumarleg lykt af kókosolíu og ég veit til þess að það er hægt að fá hana í stærri einingum, eiginlega eins og smjörlíki, í sumum matvörubúðum.

Þessi dugir mér í ca. 3 vikur og kostar u.þ.b. 700-800 kr.

Seinni skrúbburinn er samsettur af örlítið fleiri efnum en einfaldur engu að síður. Í hann nota ég ca. 2 msk púðursykur, slatta af hvítum sykri, ólífuolíu og svo fyrir lyktina, vanillu-/möndludropa. Ég á það til að dassa þetta svolítið, allt eftir því hversu grófa / fína ég vil hafa þá. Eins með dropana, mikil lykt er ekki fyrir alla en ég skelli alveg slatta. Ætli heildarkostnaðurinn á þessum skrúbb væri ekki í kringum 400-500 kr.




Einfalt, vel lyktandi og ó svo gott fyrir húðina. Virkar á allt! Nota þetta á hendurnar, fæturnar og ef ég fæ þurrkubletti (sem er ekki óalgengt fyrir Íslendinga á veturnar skilst mér ;)). 

Geymist alveg frekar lengi, nokkra mánuði en ég efast um að þeir muni endast svo lengi hjá ykkur. Hvet ykkur endilega til að prófa, húðin ykkar verður mjúk sem aldrei fyrr. 

Þangað til næst.
Dúnmjúkar kveðjur.

1/20/2013

Hvað gerir maður...

...þegar maður á landakort, flísar og fljótandi lím? 

Nú auðvitað glasamottur / hitaplatta.

 


Þetta er einfaldasta föndur í heimi, finna mynd/ir sem þú vilt nota, prenta þær út, klippa til, kaupa flísar (fann þessar í Byko á 75 kr stk., kaupa Mod Podge (fæst í öllum helstu föndurbúðum) og líma undir og líma yfir, skella svo nokkrum töppum undir.

Kostaði mig í heildina ca. 900 kr. Gott fyrir innflutningsgjöf t.d. Svo er hægt að búa til stærri hitaplatta með stærri flísunum sem kostuðu um 150 kr.

Get ekki beðið eftir að komast út í daglegt líf aftur! Búin að vera veik núna í viku og þetta er komið gott. Þó ég væri með holdsveiki hugsa ég að ég myndi samt fara i vinnuna. Alveg komið nóg af veikindaáti og glápi.

Ég jinxaði þetta samt eiginlega með að halda því fram að ég yrði aldrei veik bara í þar síðustu viku, en þetta er þá bara komið fyrir árið ;)

Hlakka til að byrja vikuna með krafti.

Ætla að enda þetta á hvatningarorðum einhvers viturs.

Eat right, exercise regularly, die anyway. 

Þangað til næst!
Hraustkveðjur.

1/17/2013

Kjúklingur í mangókarrí

Ég er enn að reyna að ná mér. Hef bara hreinlega ekki verið svona veik í mörg ár. En það þýðir ekkert að liggja bara og vola. Ég dreif mig fram úr og eldaði svona til þess að fá einhvern mat í kroppinn en ekki bara skyndibita og veikindafæðu. Í þetta skiptið langaði mig til að prófa eitthvað nýtt, svo ég eldaði kjúkling í mangókarrí.

Uppskriftin er afar einföld og þetta tekur enga stund.







5-6 bringur
salt og pipar
4 rif hvítlaukur
1 peli af rjóma
1/2 krukka mangochutney
1 msk karrí

Ef ykkur finnst karríbragðið of yfirgnæfandi þá er bara að bæta aðeins meiri rjóma.

Byrjið á því að skera bringurnar í litla og krydda með salt og pipar. Bitarnir eru síðan steiktir á pönnu. Þegar þeir eru alveg að verða til þá er hvítlauknum, mango chutney, karrí og rjóma hellt útá. Ég lét þetta síðan malla við lágan hita í 15 mínútur. Þetta borðuðum við með hrísgrjónum og hvítlauksbrauði, þetta var það gott að við nánast önduðum matnum að okkur. 

Uppskrift er fengið héðan. En ég leita mikið í kjúklingaréttina hennar Áslaugar enda hafa þeir allir verið góðir sem ég hef prófað. Mæli hiklaust með uppskriftunum hennar. Ég breytti henni aðeins eftir okkar hentisemi og bragðlaukum. Mæli alveg með þessari uppskrift við flest tilefni, einföld, bragðgóð og ekkert of kostnaðarsöm.

Þangað til næst.
Letilaskveðjur.

1/15/2013

Sniff, snöfl, snörl

Þetta er það eina sem ég hef til málanna að leggja þessa dagana. Flensan náði mér sjáið til.

Ég var barnið sem veiktist nánast aldrei ... þangað til ég fór svo að vinna á leikskóla, þá hrundi ónæmiskerfið algjörlega og ég hef fengið flensuna 1-2x á ári eftir það, alltaf á sama tíma.

Það er ótrúlegt hvað maður verður heiladauður og hugmyndasnauður þegar flensan nær völdum.

Eins og þið komust að í síðasta bloggi á ég ansi margar krukkur. Ég hef verið að skoða ýmsa notkunarmöguleika fyrir þessar krukkur. Hér eru nokkrar sem mér líst vel á...

Undir möffinsform. Hér.


Elska kerti í krukku og elska blúndu. Kemur mjög vel út saman. Hugmynd fengin héðan.


Fáránlega krúttað. Hér.


Kertagerð ... fíla þessa hugmynd, eina sem þarf er krukka, afgangskerti og þráður. Hugmynd fengin héðan.


Ég er að hugsa um að framkvæma eitthvað af þessum hugmyndum á næstunni. Svona þegar heilsan kemur aftur, þangað til er það bara Bones og te. 

Hef verið að kynna mér stöku vegan uppskrift og ég er alls ekki jafn hrædd við þetta og ég var. Held og vona að þetta verði ekki jafn erfitt og ég ímynda mér. Hugsa að þetta sé allt bara spurning um réttu samsetninguna og kryddblöndu. Ef bragðið er gott þá kannski skiptir ekki öllu máli þó að það vanti stöku svín eða lamb. Kannski er það jafnvel bara betra. 

Ég er allavega spennt :)

Þangað til næst.
Kvefkveðjur. 



1/10/2013


Eins og ég tók fram fyrr í vikunni þá er þetta föndur mitt afar lítið þessa vikuna, þetta var bara svona smá betrumbæting til þess að lífga upp á hlutina.

Ég rakst á risastórt & merki um daginn og sá strax einhverja möguleika á betrumbætingu. Þannig að með smá lími, skrapp pappír, skærum og blýant varð þetta:


að þessu:


sem hvílir núna settlega ofan á Ástarljóðum eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi sem ég fékk frá betri helmingnum í jólagjöf. 

Og til þess að bloggið verði ekki bara þetta ógurlega flókna föndur ætla ég að leyfa ykkur að skyggnast aðeins inn í kvöldið...

Ég er í smá fráhvörfum frá jólaljósum heima þannig að í staðinn er ég martröð eldhræddra og kveiki á sprittkerti í hverri krukku sem finnst á heimilinu. Hlutirnir þurfa ekki að vera dýrir til þess að vera kósí! Ég er forfallinn krukkusafnari því annað finnst mér svo mikil sóun og það gefur að skilja að ég þarf bráðlega aukaeldhús undir krukkur. 


Oooog eins og flest aðrir huga ég að markmiðum og nýjum hlutum til að gera þegar árið er liðið. Ég hef reyndar ekki verið mikið í því að strengja þessi týpísku heit heldur finnst mér gaman að finna eitthvað frumlegt (ef frumlegt skyldi kalla) og sjá hversu lengi ég man eftir því. Í þetta skiptið sá ég skemmtilega hugmynd sem ég ætla að reyna að halda út allt árið því að ég held að það verði verulega ánægjulegt í lok árs 2013. Hún snýst um það að skrifa niður allt það skemmtilega, ánægjulega, glaðlega og frábæra sem gerist fyrir mann yfir árið og svo les maður það í lok árs og gleðst yfir öllu þessu aftur! :) Frábærlega hamingjusamt og klisjulegt eitthvað og ég er að standa mig! Fann þessa frábæru krukku undir miðana í Kolaportinu sem öskraði á mig að taka sig heim, gott að hafa hana líka á glámbekk þannig að ég muni eftir þessu. 

   




Þetta var allavega kvöldið mitt í hnotskurn. Mini-föndur, kertaljós og almenn væmni. Hlakka alveg ógurlega til sumarsins en kann samt að meta það að hafa kertaljós í myrkrinu. 

Þangað til næst. 


1/09/2013

Update

Jább - Ryan Gosling er með'idda!


Annars fer alveg að koma að föndrinu mínu! Eða kannski verður það uppskrift fer eftir hvort ég ákveð að gera á morgun :D 

Svo er ég búin að vera skoða svoldið vegan uppskriftir. Ég væri að ljúga ef ég segði að ég hefði ekki svitnað smá á efri vörinni. Þetta er alveg aðeins smá flókið. En ég er samt alveg all in, þetta verður í það minnsta fáránlega fróðlegt og það verður gott að minna mann á að vera svoldið meðvitaður um það hvað maður er að láta ofan í sig! 

Þangað til næst! 

1/05/2013

Lengi lifi bloggið!

Það hefur ekkert gengið neitt sérlega vel hjá mér að halda lífi í þessu bloggi en ég hyggst snúa því við á nýju ári. Er með alveg fullt planað sem ég held að gæti verið gaman að deila með netheimum! Uppskriftir, föndur, áramótaheit, markmið og tímabundnar lífstílsbreytingar.

Var að spá í að gera smá markmið varðandi bloggið til þess að reyna að halda lífi í því. Ætla að vera með tvö diy verkefni á mánuði og þess á milli ætla ég að pósta hugleiðingum og uppskriftum.

Svo í mars hef ég ákveðið að prófa vegan mataræði í heilan mánuð. En yfir þann tíma ætla ég að blogga um árangurinn sem og aðgengi að vegan mat á Íslandi og uppskriftum. Þetta er eitthvað sem mig hefur alltaf langað til að prófa og nú ætla ég að láta verða að því! 

Ég er reyndar þannig að ég strengi ekki beint áramótaheit heldur skrifa ég frekar niður nokkur markmið sem ég reyni að vinna að yfir árið. En það er ekkert hundrað í hættunni þó að þau standist ekki, þá færast þau bara yfir á næsta ár.

Eða eru áramótaheit kannski þannig? 

Allavega ... stay tuned fyrir fullt fullt af skemmtilegum hlutum. Verð með súper einfalt föndur á næstu dögum.