2/24/2013

Þegar að maður byrjar...

...daginn á spínatboozti er alveg í lagi að fá sér Doritos kjúkling í kvöldmat.


1 banani
Lúka af spínati
Mangóbitar 
1 msk hörfræ
200-300 ml appelsínusafi

Voila! Ótrúlega góður og léttur í maga.


En svo um kvöldið var ekki alveg eins léttur réttur í boði en góður var hann. Þetta er go to laugardagsmaturinn hér á þessum bæ, enda er hann einstaklega bragðgóður og ennþá betri daginn eftir, auk þess sem hann er afar einfaldur í undirbúningi. Innihald:
Kjúklingabringur
1 krukka salsasósa
1 krukka ostasósa
Matreiðslurjómi eða mjólk
Blátt doritos
Rifinn ostur

Aðferð:
1. Skerið kjúkling í bita og steikið
2. Myljið doritos niður og setjið í botninn á eldföstu móti, magn getur farið eftir smekk hvers og eins
3. Hrærið saman salsasósu, ostasósu og rjóma, magn af rjóma fer einnig eftir smekk, ég myndi prófa mig áfram með bragð og annað, sumir vilja mikið sterkt, aðrir ekki.
4. Setjið smá af sósunni yfir doritosið til að bleyta í því og setjið svo kjúklinginn yfir, því næst fer restin af sósunni yfir og toppað með rifnum ost.
5. Setjið inn í ofn við 190°C í ca. 30 mínútur eða þangað til osturinn er orðinn eins og þið viljið hafa hann, þetta borðum við síðan með hrísgrjónum og hvítlauksbrauði en það er sjálfsagt hægt að hafa hvaða meðlæti sem er.

Þetta er sá réttur sem ég hef líklegast eldað oftast yfir ævina, ég dassa yfirleitt bara og set allskonar í sósuna sem ég held að gæti verið gott, rjómaostur og sýrður rjómi t.d.

En ég mæli eindregið með að prófa þennan, hann er algjört lostæti.

Þangað til næst.
Konudagskveðjur.

2/17/2013

Bananabrauð með súkkulaði

Ákvað að skella í bananabrauð í morgun. Uppskriftin sem ég hef verið að nota er mjög einföld og það er hægt að flikka upp á hana með ýmsum hráefnum, súkkulaðispæni, hnetusmjöri, rúsínum, bláberjum... það sem hentar og gleður hvern og einn. Að þessu sinni valdi ég súkkulaði af því að ... well, súkkulaði!

Uppskrift
1 egg
3 dl sykur
5 dl hveiti
1 tsk salt
1/2 tsk matarsódi
2-3 maukaðir bananar
Súkkulaðispænir (valkvæmt)

Aðferð
1. Hræra saman egg og sykur
2. Mauka banana og setja útí eggjablönduna
3. Hræra saman þurrefnin og hella útí eggjablönduna í 3 skömmtum, hræra á milli
4. Hræra súkkulaðispænin út í
5. Baka í 45-55 mínútur við 200°C, mín reynsla er sú að það gæti tekið allt að 60-70 mín að bakast, ætli það fari ekki eftir fati hvers og eins, best er að þreifa sig bara áfram með pinnaSvo er bara að borða með bestu lyst. Í þetta skiptið notaði ég nutella og smjör, en ''brauðið'' sjálft er það gott að það er hægt að borða það eitt og sér ... mmm, algjört sunnudags.

Njótið dagsins í gluggaveðrinu.
Súkkulaðikveðjur.

2/15/2013

Killer Klowns From...

...Outer Space er eðalræma. Best er að gefa ekki of mikið upp um söguþráðinn en þarna fléttast saman gæðaleikur, klassahandrit og tæknibrellur á heimsmælikvarða. Mest sé ég eftir að hafa ekki séð þessa mynd áður enda kemur hún út á því herrans ári 1988 en eins og flestir vita gerðust aðeins góðir hlutir það ár. Að minnsta kosti ég og þessi ræma.

Ég mæli með henni fyrir öll tilefni, rómó, spennu og líka bara ef þig vantar eitthvað til að drepa tímann, þó að hún eigi skilið meiri virðingu en það.

6 stjörnur af 4 og 1/2 mögulegum.


Annars er það helst í fréttum að það er kominn föstudagur og ég ætla mér að sofa út á morgun.

Þangað til næst.
TGIF kveðjur.

2/11/2013

Rjómaterta

Helgin var ansi ljúf ... temmilega skipulögð og kósí sunnudagur. Í tilefni þess að pápi gamli var að verða árinu eldri ákvað ég að skella í eina rjómaslettu fyrir gamla, hans uppáhalds. 

Ég var ekki svo myndarleg að baka svambotnana sjálf, fylgdi uppskrift sem ég fann á mommur.is sem mér fannst mjög bragðgóð, ég er almennt ekkert sérstaklega mikið fyrir rjómatertur en þessi var alveg sérlega ljúffeng og einföld í þokkabót (þar sem enginn var baksturinn). 

Skellir blönduðum ávöxtum á neðri botninn ásamt dágóðri rjómaslettu, smyrð efri botninn með jarðaberjasultu að neðan og leggur ofan á. Skreytir með rjóma ofan á og súkkulaðispæni.... 


Mæli algjörlega með þessari. Kökudiskinn bjó ég til sjá, en þið getið lesið nánar um það hérna.

Annars hef ég verið hálfþreytt sl. daga, er að taka þátt í Lífshlaupinu og það tekur á að byrja að hreyfa sig eitthvað af viti, maður er tvímælalaust þreyttari svona fyrst til að byrja með, en það er svo ljúf þreyta. 

Framundan er eitthvað föndurverkefni ... ég á bara eftir að finna út hvað það getur verið ;)

Þangað til næst.
Rjómabollukveðjur.

2/05/2013

Innblástur og Hávamál

Er ekki kominn tími á smá þriðjudagsinnblástur? 

Eins og ég hef minnst á áður er ég voðalegur sökker fyrir ljósadýrð, ég get alveg séð einn svona ''flöskulampa'' fyrir mér inní svefnherbergi...

Mynd fengin héðan

Þegar ég er búin að koma saumavélinni í lag þá verður þetta eitt af fyrstu verkefnunum, ég hef alltaf verið forfallinn blúnduaðdáandi og sú aðdáun hverfur ekkert hvort sem blúndan er í tísku eður ei...

Hugmynd fengin héðan

Hugmynd fengin héðan

Þetta er alveg hrikalega sniðugt ... líka miklu skemmtilegra að hafa sem flesta liti í kringum sig, það hressir, bætir og kætir!

Hugmynd fengin héðan ásamt fleiri skemmtilegum hugmyndum

Mmmmmmm

Mynd fengin héðan

Þetta er ég að spá í að gera við nokkra döll vettlinga hérna heima, ekkert smá krúttlegt! 

Hugmynd fengin héðan

Annars er næst á dagskrá að koma ljóði fyrir í ramma sem ég hef verið með á heilanum á dágóðan tíma. Mér hefur alltaf fundist það afar heillandi, auk þess sem það geymir mikinn sannleik. En ljóðið sem um ræðir er svohljóðandi:

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt
aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leynist strengur í brjósti, sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast
sem aldrei verður tekið til baka.
- Einar Benediktsson úr Einræðum Starkaðar.

Af einhverjum ástæðum hafa ljóð yfirleitt mikil áhrif á mig, það er eitthvað við hrynjandann og bundið mál sem lætur mig taka meira mark á innihaldinu. Ég tek meira mark á þessu heldur en ef einhver segði einfaldlega, vertu góð við náungann annars gætirðu séð eftir því. 

Ætli það sé ekki líka ástæðan fyrir því að ég leita í Hávamál þegar mig vantar ráð .... (djók)

Án gríns samt ... þá er frábært að lesa Hávamál ef þig vantar gildi til að fara eftir í lífinu, klárlega betri og skýrari en biblían! Hér er hægt að lesa Gestaþátt Hávamála með skýringum, ég mæli algjörlega með því fyrir þá villuráfandi og vegalausa ... og hina líka sem vantar afþreyingu. Hávamál í heild sinni er svo hægt að lesa hér. 

Byrjaði á innblæstri um klút og naglalökk og endaði á Hávamálum ... jájá, af hverju ekki?

Þangað til næst.
Heilir eru þeir sem hlýddu!

2/03/2013

Mexíkósk kjúklingasúpa (the easy way)

Vonandi áttuð þið yndislega helgi. Mín var afar róleg og ljúf. Fékk yndislegar dömur í heimsókn á laugardeginum, nánar tiltekið 2x Sigurborg og mömmu. Mikið spjallað, mikið borðað, mikið hlegið og mikið gaman. 

Svo mallaði kjúllasúpa í pottinum um kvöldið og ég sver'ða, það er eitthvað ávanabindandi í henni, svo bragðgóð er hún. Ég fékk þessa uppskrift hjá samstarfsfélaga þegar hún bauð okkur til sín í mat á síðasta ári og hef eldað hana nokkrum sinnum síðan þá, hún er einföld, tiltölulega fljótlega og eins og ég hef minnst á nokkrum sinnum áður, hrikalega bragðgóð. 

Uppskrifting er svohljóðandi með smá breytingum frá mér...(fyrir ca. 5-6 manns)

4 bringur
3 paprikur
1 púrrulaukur
1 laukur
3 hvítlauksrif
3/4 flaska Heinz hot chili (hef komist upp með að nota ekki hot, þá verður hún bara ekki jafn sterk)
3 msk súrsæt chili
1 askja rjómaostur
3/4 L kjúklingasoð (notast yfirleitt við kjúklingatening og vatn bara)
1/2 L rjómi

Aðferð: Steikja kjúllann og setja til hliðar, því næst er grænmetið steikt í stórum potti og Heinz + súrsætu chili ásamt rjómaosti bætt út í. Síðan kjúklingasoði og rjóma. Þetta er síðan soðið í 15-20 mínútur en þá er kjúklingnum bætt við.
Þetta borða ég svo einfaldlega með hvítlauksbrauði eða baguette. Þetta er algjör snilld og ég geri yfirleitt skammt fyrir 2-3 daga.

Nokkuð öruggt samt sem áður að það verði ekki mikið eldað af henni í vegan mataræðinu...

Annars hlakka ég bara til vikunnar. Gott að segja gleðilegan mánudag, það platar mann í að halda að mánudagar séu eitthvað annað en fúlir ;)

Þangað til næst.
Mánudagskveðjur.

2/01/2013

Sinnepskjúlli og kertafjör

Mig langaði í eitthvað gott sl. fimmtudag, eitthvað létt og eitthvað sem ég gæti gert að nesti fyrir næsta dag. Þá mundi ég eftir uppskrift sem ég hafði hripað niður fyrir nokkrum mánuðum og alltaf ætlað að prófa ... og ég sé ekki eftir því. 4 Kjúklingabringur
1 1/2 msk sætt sinnep
2 1/2 dl sýrður rjómi
1 msk dijon sinnep

Aðferð: sinnepinu og sýrða rjómanum er hrært saman og síðan penslað á kjúklinginn. Kjúklingurinn er síðan settur í eldfast form og bakaður 185°C í ca. 30 mínútur. Við borðuðum þetta með hrísgrjónum og hvítlauksbrauði (eins og allt annað, já við elskum hrísgrjón og hvítlauksbrauð!)

Fáránlega einfaldur og hrikalega bragðgóður, ennþá betri daginn eftir. Mæli tvímælalaust með þessari! 

 Svo var bara heimagert pizzukvöld í kvöld. Pizza á föstudögum er eiginlega bara möst.


 Svo er ég að spá í að sýna ykkur smá föndur sem ég var að dunda mér við áðan, ég sá þessa hugmynd á Pinterest fyrir nokkru og ákvað að prófa. Að mínu mati kom þetta þokkalega vel út og er ansi skemmtilegt til að poppa upp kertastjaka. 

Hráefnið: Myndirnar sem þú hyggst nota, kertastjakar, skæri, límband eða lím og kerti. Í mínu tilfelli átti ég ekki glæra kertastjaka sem pössuðu inn í myndina þannig að ég notaði þessa í bili en mun örugglega skipta þegar ég get til þess að birtan komi betur út.


Myndirnar eru síðan klipptar út, rúllaðar í kringum kertastjakann og límdar saman með lími eða límbandi.


Kemur mjög kósí og krúttleg birta frá stjökunum. Ég er bara doldið sátt sko :)


Helgin fer í almenn rólegheit og kjúklingasúpugerð. Þið fáið uppskriftina um helgina, þessi súpa er sú besta sem ég hef smakkað. Get eiginlega ekki beðið eftir því að elda hana á morgun...

Þangað til næst.
Helgarkveðjur.