Síður

3/23/2013

2 tegundir af vegan muffins

Mér finnst gaman að baka og eitt af því sem ég pældi í þegar ég ákvað að prófa vegan var hvort að ég myndi nú geta bakað, ég hafði kannski bara smá oggupoggulitlar áhyggjur af því. Ég þurfti þess sko aldeilis ekki, það er til aragrúi af góðum vegan bakstursuppskriftum.

Ég ætla að deila með ykkur 2 sem ég hef prófað, finnst gott að grípa í þær þegar ég er ekki alveg viss hvað skal fá mér gott með kaffinu um helgar.

Bláberjahafrakanilmúffur (eða eitthvað álíka þjált) ca. 12 stk


1. Hræra saman 1 1/2 bolla af hveiti, 1/2 af bolla hrásykri, 1/2 bolla af höfrum, 1 tsk salt, 2 tsk af vínsteinslyftidufti, klípu af kanil og bæti svo út í 3/4 bolla soya/möndlumjólk, 1/4 bolla olíu og 1 bolla af bláberjum (fersk eða frosin)



 2. Hrært saman, sett í form og bakað við 190°C í 25-30 mínútur. Rosalega mjúkar og góðar.

Bananakanilhaframúffur (jebb, elska kanil) ca. 12 stk


1. Blanda saman 1 bolla af heilhveiti, 1/2 bolla af höfrum, 1 tsk vínsteinslyftidufti, 1 tsk matarsóda, 1/2 tsk salt og klípu af kanil 
2. Hræra svo saman í annarri skál, 1/2 bolla af púðursykri og 1/2 bolla af olíu, bæta síðan 2-3 stöppuðum bönunum við það


3. Hræra síðan hveitiblönduna út í bananablönduna og blanda vel, setja í form og baka við 190°C í 15 til 20 mínútur. 

Hrikalega mjúkar og góðar.


Svo þið sjáið, það eru ekki bara baunir og fræ sem maður þarf að stöffa í smettið á sér, það er hægt að gæða sér á ljúffengum laugardagsbakstri bara litlum breytingum og ímyndunarafli.

Þangað til næst.
Múffukveðjur.

3/21/2013

Kjúklingabaunakarríréttur (rosa góður, ég lofa)

Ég veit að ég hef ekkert verið neitt sérlega dugleg að blogga, a.m.k. ekki eins dugleg og ég ætlaði mér en hér er ég enn, vegan í 21 dag. Á þessu stigi málsins er þetta orðið frekar effortless, það er hægt að búa til allt með rosalega miklu magni af grænmeti að það er eiginlega frekar magnað. Ég fann þessa uppskrift um daginn á hjá cafesigrun.com. Mér fannst hún alveg dásamlega góð og ennþá betri daginn eftir þegar kryddin og grænmetið voru búin að liggja saman yfir nótt. 


 Ég notaði lauk, papriku, gulrót, hvítlauk og blómkál


Byrja á því að steikja laukinn uppúr kókosolíu í nokkrar mínútur, leyfa honum að svitna og mýkjast aðeins
Bæta síðan 2 msk af curry paste, 3 msk af tómatpúrru og chili kryddi eftir smekk útá og steikja laukinn uppúr því í smástund


Bæta við restinni af grænmetinu og leyfa því að veltast aðeins um í kryddinu
Bæta síðan 1 dós af kókosmjólk og 1 dós af niðursoðnum tómötum út í ásamt 2 grænmetisteningum og kjúklingabaunum 


Voila! Þetta borðuðum við með heimagerðu hvítlauksbrauði og hrísgrjónum, omnom! Og ennþá betra í tortillu með spínati daginn eftir. 


Líðanin er fín, ég sé ekki mikinn mun á mér ef ég á að vera alveg hreinskilin.

Ég verð að viðurkenna að ég er að verða smá smeyk við að borða kjöt eftir að mars lýkur. Ég veit ekkert hvaða ákvörðun ég tek í framhaldi af þessu en mér hefði aldrei dottið í hug að mér ætti eftir að líða ''asnalega'' við að hugsa um kjöt sem mat.

Kemur allt í ljós. Páskadagur verður án efa mjög skrítinn.

Þangað til næst.
Samviskukveðjur.


3/12/2013

Hryllilega góður indverskur réttur

Ég skal alveg vera hreinskilin við ykkur. Ég missti smá von um helgina, ég var smá þunn og líkaminn kallaði á óhollustu. En ég lét ekki undan og það var ennþá betra en nokkur þynnkumatur. Í staðinn fór ég á stúfana og reyndi að fá innblástur, datt þá niður á æðislega síðu, www.heilsumamman.com, en hún er með ýmsar uppskriftir sem ýmist eru vegan eða hægt er að útfæra á vegan hátt. Ég fann uppskrift að indverskum grænmetisrétt og var sko ekki svikin. Hrikalega einfaldur og rosalega bragðgóður, þessi verður klárlega notaður oftar.

Mín úfærsla var eftirfarandi: 
1/2 blómkál
1 laukur
2 tómatar
1 paprika
1 msk kókosolía
1 1/2 msk curry paste (meira ef þú vilt bragðmikið)
1 msk saxað engifer
Allskonar góð krydd, timian, pipar, paprikukrydd ofl
1 dós kókosmjólk




 1. Hita kókosolíu á pönnu ásamt engifer og curry paste
2. Steikja lauk, hita hann vel og setja síðan restina af grænmetinu á pönnuna


 3. Hella kókosmjólk útí ásamt kryddum og leyfa þessu að malla í smá tíma 


 Svo langaði mig svo hriiikalega í hvítlauksbrauð að ég steikti hvítlauk upp úr olífuolíu ásamt hvítlaukssalti og steikti svo brauð (vegan ofkors) upp úr því. Omnom! 


Einstaklega einfaldur og bragðgóður réttur! 5 stjörnur af 5 mögulegum, víví, hope restored!

Þangað til næst.
Grænmetiskveðjur.


3/09/2013

Vika af vegan

Jæja ... þá er rúmlega vika búin af vegan mataræði. Líðanin er mjög góð, ég passa mig að taka vítamín og fá prótein úr baunum, hnetum og fræjum. Búin að prófa mig áfram með allskonar matargerð, sumt hefur heppnast og annað ekki. Ég get ekki sagt að ég sé mikill aðdáandi Sheese, sem er vegan ostur. Það er einkennilegt plastbragð af honum og lyktin er vægast sagt ógleðisvaldandi. Þar af leiðandi hef ég eiginlega alveg sleppt ost í matargerð þessa vikuna. Það er líka bara ákveðið challenge og gaman að finna nýjar uppskriftir sem ég mun örugglega nota þegar mars er búinn. Í fyrradag eldaði ég hrísgrjónarétt og setti hann í tortillu með avacadó/lauk mixi. Verulega gott. 






Og svo dekraði maður smá við sig og fékk sér ''ís'', þ.e.a.s. kókosmjólk, jarðaber og agave síróp. Endaði meira eins og jógúrt en það var líka bara fínt. 


Nú er ég á fullu að finna indverskar grænmetisuppskriftir, það er ekki skortur á þeim. Ætla að vera duglegri að elda í næstu viku, nú þegar ég er búin að prófa baunir og allskonar kryddmix er ég komin með aðeins betri hugmynd um hvað ég fíla og hvað ekki. Ég er t.d. ekki mikill aðdáandi nýrnabauna en mér finnst kjúklingabaunir mjög fínar.

Ætla að henda í eitt vegan bananabrauð og fara svo að gera mig til fyrir árshátíð.

Þangað til næst.
Helgarkveðjur!

3/04/2013

Chili með nýrnabaunum

Í dag gerði ég mitt fyrsta Chili. Það var ekki flókið og lyktaði mjög vel, hugsa að ég noti afganginn yfir spaghettí á morgun.






Uppskriftin er laukur, hvítlaukur, paprika, baunir, kúmmin, chilikrydd, salt, tómatar í dós og svo setti ég þetta ofan á tortillaköku.

Mjög gott ... ætla samt að muna að nota minna af baunum næst, ég er enn að læra á skammtana. Setti mínar fyrstu baunir í bleyti í morgun og það kom mér á óvart að þær uxu á meðan ég var í vinnunni. Jebb ... ég hef enga reynslu í baunaeldamennsku en það er líka það sem er svo gaman við þetta.

4 dagurinn án kjöts og mjólkuvarnings og mér líður vel. Ég áttaði mig því í dag að þetta er það lengsta sem ég hef verið án hvort tveggja frá því ég hóf neyslu mína á þessum dásemdarvörum.

Þetta er allt mjög spennandi og ég er spennt á hverjum degi að ég fylgjast með áhrifunum sem þetta hefur á mig.

Enn sem komið er hef ég verið mjög ánægð með aðgengi í búðum. Það hefur komið mér á óvart að ég finn alltaf allt sem ég leita að og það er yfirleitt ekkert mál, fæst í Bónus, Krónunni eða Hagkaup, Nettó hafa líka verið mjög öflugir. Þannig að ... enn sem komið er, get ég ekki kvartað yfir því.

All in all, ég er bara góð sko.

Þangað til næst.
Baunakveðjur.

3/03/2013

Þriðji í vegan

Jæææja, þá er mars farinn af stað og þar af leiðandi vegan. 

Mánuðurinn byrjaði þannig að ég fór í Bónus og verslaði, þar sem að ég hef ekki mikið verið í því að elda vegan þá var svona eitt og annað sem vantaði ... það tók mig 2 tíma að kaupa það sem er á myndinni hér að neðan, það er ótrúlegt hvað það verður flókið að versla þegar það má ekki vera mjólk eða kjöt. Á tímabili var ég orðin pínu rugluð og ráfaði um í algjöru reiðuleysi. En þetta hófst allt á endanum...


So far hef ég ekki þurft að gera neina stóra vegan máltíð, á föstudeginum gerði ég mér grænmetispizzu, í gær fórum við á árshátíð þar sem ég fékk sérfæði og í dag skelltum við okkur á Serrano þar sem ég fékk mér grænmetisvefju. En stefnan er tekin á að leggja baunir í bleyti strax um morguninn á morgun.

Ég er afar bjartsýn á að mér takist þetta, ekkert kjöt og engar mjólkurvörur í 30 daga. 3 búnir og mér líður vel. Ég passa mig á að taka Spirulina og B12 vítamín.

Þetta ferli er komið stutt á veg en endilega ef þið lumið á góðum vegan uppskriftum eða ábendingum um hvað á að gera og hvað á ekki að gera þá eru þær vel þegnar.

Þangað til næst.