Síður

7/25/2011

Af druslum, gömlum hlutum og öðru merkilegu

Druslugangan var haldin í fyrsta sinn í Reykjavík þann 23. júlí sl. og tókst ótrúlega vel. Boðskapurinn komst vel til skila og vel var mætt. 









Það er ekki hægt að kíkja niður í miðbæ án þess að kíkja í Kolaportið, þannig er það nú bara.







Enn ein yndisleg helgi liðin ... djö er ég farin að kvíða því að fara ekki í skóla, ég á heima í skóla, þar uni ég mér best. Ef ég bara vissi hvað ég vildi læra þá væri allt miklu auðveldara. Auk þess sem mig langar til að ferðast áður en ég fer í master og til þess þarf ég pening og til þess þarf ég 100% vinnu. Skemmtileg hringrás. Held að ég hljóti nú að venjast því fljótt að vera á vinnumarkaðnum. Er það ekki alveg jafn gaman og að vera í skóla? Plís?

7/21/2011

Mini dund

Ég er svolítið sérstök eins og margir sem þekkja mig kannast við. Ég á það til að sanka að mér allskyns drasli án þess að hafa pláss fyrir það. Verkefnið hér að neðan er gott dæmi um það, ég hef hvergi pláss fyrir þessar hillur en mig langaði svo að föndra þannig að ég gerði það bara samt ... hey ekki eins og þær renni út eða eitthvað, hengi þær upp þegar ég fæ pláss! 

En þetta er semsagt mini dund dagsins, gerði þetta fyrir langa löngu, hillurnar eru keyptar í Söstrene Grene og málningin líka. Fyrsta skref er að mála hillurnar.



Þegar þær voru þornaðar festi ég skrapp pappír inn í þær, þetta er eiginlega bara svona prufu, mun gera það betur þegar þær fara upp á vegg, klippa hann betur osfrv. 



Ég á svo mikið af smáhlutum sem eiga hvergi stað nema í svona hillum, ég er líka algjör sökker fyrir smáhlutahillum. Þetta var bara svona mini project ... annars er mig alveg farið að klæja í puttana að bæta og breyta í Njarðvíkinni. Það bíður betri tíma...

Þangað til næst.

7/18/2011

Eirðarleysi í júlí leiðir til breytinga

Þegar ég var yngri þá var ég harðákveðin í að verða arkitekt ... þangað til ég áttaði mig á að námið byggist að miklu leyti á stærðfræði. En það er önnur saga. Tilgangurinn með þessum fróðleiksmola er til þess að varpa ljósi á áhuga minn á allskyns hönnun, innanhúss sem utanhúss. Ég fann frumstætt forrit í gömlu heimilistölvunni okkar ca. 2002 þar sem hægt var að hanna heimili og skrifstofur að innan. Þetta var algjör gullnáma og svolítið eins og frumstæður Sims leikur, en þetta var rétt áður en þeir voru gefnir út. Í gömlum kössum með drasli frá mér má finna ógrynni af teikningum af heimilum, skrifstofum, 3ja hæða byggingum, líkamsræktarstöðvum, verslunarmiðstöðvum, leikhúsum og ég veit ekki hvað og hvað. Mismunandi pennar notaðir fyrir mismunandi húsgögn og allt voða litríkt og þráðbeint.
Nú víkur frásögninni að upphaflega tilgangi þessarar bloggfærslu sem er eldhúsið suður með sjó. Mig hefur svo lengi langað til að fá útrás fyrir breytinga/skipulags/innanhússhönnunar þrá mína og ákvað því að ráðast á eldhúsið hennar mömmu þar sem ég á ekki mína eigin íbúð enn. Hér fyrir neðan má sjá árangurinn sem ég er nokkuð sátt með þó ég segi sjálf frá. Breytingum er þó hvergi nærri lokið og mun ég mála alla íbúðina og breyta til þegar ég kemst í meira fri í ágúst. Þið getið klikkað á myndirnar til að stækka þær.


Svona leit semsagt eldhúsið út áður en ég réðst á það. Óreiðan er sökum þess að ég var að rífa allt út úr skápunum. Þið afsakið það vonandi. Á seinustu myndinni sést að ég er búin að grunna efri skápana. Eldhúsið er ekki það stórt og mér datt í hug að það myndi stækka það að mála það allt í.....


...hvítum lit. Ég byrjaði á því að þrífa vel með fituhreinsi því þetta er gömul innrétting, grunnaði og málaði síðan tvisvar yfir með hvítri olíumálningu frá Lady, gljástig 40. Ég og mamma erum allavega gríðarlega sáttar og djöfull var þetta gaman. Ég mun klárlega halda áfram að ráðast á íbúðina með hennar leyfi að sjálfsögðu, eitt herbergi í einu. Á seinni myndunum sést hvar ég er byrjuð að mála vegginn en því verður haldið áfram í ágúst. Endilega komið með input. Ég er með fullt af fleiri svona verkefnum í gangi og í hausnum á mér ... endilega látið mig vita hvort ykkur finnst svona skemmtilegt eða hvort ég eigi bara að blogga um bölsýni og bölmóð samtímans. Annars er mér alveg sama, mér finnst þetta fokking gaman og mun halda því áfram. Djók. 

Ég er með verkefni sem ég er löngu búin með og mun birta seinna. Ég var líka svo heppin að detta inn á tvær bílskúrssölur um daginn og keypti mér heilan helling af allskyns gersemum þ.á.m. eldgamla kaffikvörn á 300 krónur og forlátan sporöskjulaga spegil á 500 kr. Spegilinn er ég að spá í að spreyja í einhverjum skemmtilegum lit. 

Ég er einnig að hugsa um að fara lesa meira. Hvaða bókum mæliði með?

Nóg komið í bili.
Þangað til næst.

7/17/2011

Vertu sæll gamli vin

Ég man ennþá eftir því þegar ég fékk fyrstu Harry Potter bókina í hendurnar. Það hefur líklegast verið 1998, ég þá 9 að verða 10 ára. Ég var ekki sannfærð þrátt fyrir að mamma væri alveg ákveðin að þetta væri eitthvað fyrir mig. Ég byrjaði og gat ekki hætt. Kláraði hana á einu kvöldi og gat ekki beðið eftir meiru. Hef verið algjörlega húkt síðan þá, enda hefur alltaf eitthvað verið að hlakka til á hverju ári. Annað hvort bók eða mynd. Það verður undarlegt að hafa ekkert næst. Engin bók og ekki neitt. Að vísu er www.pottermore.com, en ég á eftir að sjá hvað það verður.

Fólki finnst þetta kannski fulldramatískt en það er bara þannig að bækur hafa eintakt lag á að ná undir skinnið hjá manni. Tala nú ekki um þegar maður er 10 ára og með fjörugt ímyndunarafl. Karakterarnir verða jafn raunverulegir og þú og ég. Því er á vissan hátt erfitt að vita að það muni ekki verða neitt meira. Já ég Harry Potter nörd og hef verið í 13 ár og mun vera í 113 ár í viðbót. Það er bara þannig.

Annars finnst mér að þið ættuð lesendur góðir að stay tuned, ég er með makeover blogg í vinnslu. Mun koma með það í vikunni, það er ekki jafn auðvelt og það virðist að breyta heilu eldhúsi.

Þangað til næst.

7/02/2011

Af fávitum og öðrum dusilmönnum/konum


Hvað er aðdáunarvert við það að sigla á móti straumnum þegar straumurinn er af jákvæðum toga og stuðlar að jafnrétti og vellíðan? Hvernig er hægt að hampa svona skoðunum skil ég ekki. Ég hef iðulega talið mig skilningsríka og mannfræðin hefur kennt mér ýmislegt um menningarlega afstæðishyggju en þetta er bara fávitagangur. Það eina góða við svona fávitagang er það hann styrkir jafnréttisbaráttuna, hleypir aðeins líf í hana og lætur blóðið krauma. Að öðru leyti sé ég enga ástæðu til þess að hampa eða klappa fyrir svona fávitaskap. Það að vera kona er ekki það sama í öllum menningarfélögum og það að vera kona er ekki að geta straujað, eldað, séð um heimilið og brosað blítt. Ef ég get ekkert af þessu nema síðarnefnda er ég þá bara 1/4 kona? 

Það er kannski aulalegt að nefna þetta 21 ári eftir að þessi þáttur er sýndur en það er nú samt þannig að við erum enn með svona karaktera sem er hampað í samfélaginu. Allt bleikt.is eins og það leggur sig, Gillzenegger sem álítur svo að stjórnmálakonur séu ekki til neins gagnlegar nema til þess að fá ,,granítharðan í hárugan bílskúrinn" til þess að þær ,,læri að steingrjóthalda kjafti og haga sér" (hans eigin skrifuðu orð af bloggi hans árið 2007. 

Það er eitthvað að þegar bæði stelpur og strákar, konur og karlar hampa svona fávitagang. Það er ekkert hægt að segja neitt meira, fávitagangurinn er svo augljós í mínum augum að mér finnst ég ekki þurfa að segja neitt meir.

Ég veit ekki af hverju ég geri sjálfri mér það að pirra mig á svona kjaftæði og það á youtube 21 ári seinna kl. 2 um nótt.

Ætli jafnréttisbaráttan sofi nokkuð? Nei það held ég ekki.

Þangað til næst.