Síður

9/28/2011

Hvernig hegðar þú þér?

Á nokkurra mánaða/ára fresti rís alltaf upp umræða í þjóðfélaginu um einelti. Stundum hefur það verið vegna þess að ungur einstaklingur bugast og tekur eigið líf, stundum hefur það verið vegna þess að ungur einstaklingur sem lifði af segir sögu sína. Hver svo sem ástæðan kann að vera er nauðsynlegt að skoða nánar þessa umræðu að mínu mati.

Einelti er þegar einstaklingur er kerfisbundið útilokaður frá hópnum með einum eða öðrum hætti. Flestir hafa fundið fyrir þessu á sínum grunnskólaárum, mismikið þó. Hvernig umræðan um einelti hefur átt sér stað í samfélaginu tel ég vera vandamál. Þetta orð hefur misst alla merkingu og fólk hefur fjarlægst hugtakið að mínu mati. Einelti er ekki eitthvað sjálfstætt fyrirbæri sem á bara heima innan veggja grunnskóla eða á internetinu. Einelti getur átt sér stað hvar sem er og á hvaða stigum sem er. Einelti er hegðun en ekki fyrirbæri sem gerist bara. Einelti á sér stað þegar einhverjum aðila líður illa og veit ekki hvernig hann á að fá útrás fyrir vanlíðanina. Þetta getur gerst á vinnustað hjá fullorðnu fólki jafnt sem á grunnskólalóð. Hvað er baktal og fordómar annað en einelti?

Kennarar og skólayfirvöld geta vissulega gert allskyns plön og lofað öllu góðu en ef ekkert gerist heima fyrir þá stoðar það lítið. Ef foreldrar kenna börnum sínum ekki umburðarlyndi, tillitssemi og kurteisi. Ef foreldrar kenna börnum sínum ekki að það er í lagi að vera þybbinn, grannur, hávaxinn, lágvaxinn, lesblindur og gáfnaljós, rauðhærður, dökkhærður, svartur og hvítur þá hafa skólayfirvöld takmörkuð úrræði. Að ,,klaga" í kennarann eða foreldra gerir hlutina oft og tíðum verri. Foreldrar þurfa að kenna börnunum sínum að kljást við tilfinningar sínar (já líka ef barnið er strákur!).

Einhverjir hugsa kannski ,,hún getur trútt um talað, barnslaus og allt". En ég þarf ekki að eiga barn til að vita hvað má bæta, ég hef verið í þessari aðstöðu, þ.e.a.s. þolenda aðstöðunni og ég veit hversu hjálparvana maður er í raun og veru. Foreldrar og kennarar þurfa einnig að minna þolendur á að þetta er ekki þeim að kenna.

Einelti er ekki sjálfstætt fyrirbæri heldur hegðun sem er partur af miklu stærra batterí. Hvernig talið þið í kringum börnin ykkar? Baktalið þið nágrannana? Hlæjið þið að óförum annarra? Litlir hlutir sem ykkur finnst ekki skipta máli skipta lítil eyru kannski miklu máli.

Þar að auki held ég að skólakerfið á Íslandi sé stórgallað batterí en það er allt önnur ella og miklu flóknari.

No comments: