Síður

8/17/2012

Skipulagsfrík

Klukkan er 2:12 og ég er að fara að blogga um skipulag og kort. Hvenær hefur maður gengið of langt? Hvenær er maður offisjalí ekki lengur kúl?

Ég vil meina að skipulag sé grunnundirstaða lífsins. Að mínu mati gengur ekkert upp án skipulags og ef svo undarlega vill til að hlutirnir ganga upp án þess þá er það bara heppni! Nei ég segi svona ... ég er samt voðalega hrifin af skipulagi. Listum, post-it miðum, dagatölum, flokkum, miðum, kössum. Mér líður bara svo vel ef ég veit hvar hlutirnir mínir eru og ef ég veit að þeir eru í stafrófsröð!

Kvöldinu eyddi ég semsagt í smá hangs og svo var hafist handa við alvöru stuff um 10 leytið. Nefnilega kortagerð og kortaskipulag. Gengur ekki að vera með þetta bara útum allt og gengur ekki að vera að borga 500 kr fyrir eitt kort útúr búð.


Hérna er brotabrot af þeim kortum sem ég hef verið að dunda mér við að gera, ef ég ætti að giska þá myndi ég halda að kostnaðurinn væri svona 50 kr hámark fyrir hvert kort, en ég átti flest allt í þau


Byrjaði á því að klæða skókassa með gjafapappír og skreyta hann með dúlleríi 


Ofan í kassann setti ég svo milliblöð úr stífum pappa og flokkaði eftir tilefnum, þá var ekkert eftir nema að raða

Þetta blogg hefur kannski verið fullmikill innsýn í það hversu klikkuð ég get verið í frítíma mínum. Í versta falli skemmti ég ykkur þá!

Þangað til næst.

8/13/2012

Kertagerð og diy skartgripahengi

Ég á það stundum til að fá einhverja hugmynd að föndri seint á kvöldin. Í tilfellinu hér að neðan var það kertagerð kl. eitt eftir miðnætti. 
Í stað þess að henda hálfbrunnum kertum þá safna ég vaxinu þangað til ég er komin með nóg í annað kerti. Ég er svo kertaóð þannig að það tekur yfirleitt ekki langan tíma. Svo fer maður bara í næstu föndurbúð og kaupir kertaþráð. 

 Setur vaxið allt í einn pott og leggur þann pott yfir pott með sjóðandi vatni. 

 Safnar saman kertakrukkum og glösum og límir þráðinn í botninn með smá vaxi

Svona lítur þetta út eftir smástund

Þá er þessu hellt í glasið, það er gott að finna sér eitthvað til að halda þræðinum á réttum stað

Voilá, þú ert komin með ''frítt" kerti

Stóð í þessu til kl. 2 um nóttina en græddi líka 4 stór kerti fyrir vikið :) Svo er hægt að blanda saman litum og lyktum, allt eftir smekk. 

Þetta er svo föndur sem ég er búin að vera að pæla í aðeins lengur. Ég fékk í hendurnar forlátan, brotinn ramma frá RL vöruhús fyrir nokkru síðan og var lengi að pæla hvert hans hlutverk gæti verið. Ég blandaði smá málningu sem ég átti hérna heima og byrjaði á því að mála hann. Fyrst var ég að pæla í að hengja snæri inn í hann og hengja á það myndir en mér fannst það ekki koma nógu vel út. Svo eftir smá spekúleringar varð skartgripahengi fyrir valinu vegna þess að mig hreinlega vantaði einhvern stað til að hengja allt glingrið. 
Ímyndið ykkur nákvæmlega þennan nema með brotnu gleri 

Tók allt úr, málaði, klippti niður blúndu sem ég átti og hengdi hana í krókana sem eru aftan á flestum römmum, voilá ... hringarnir hanga svo fyrir ofan.

Já þetta er beisiklí það sem ég hef verið að gera í fríinu, ásamt þúst, einni Danmerkurferð og eitthvað ... :)

Vonandi eru ekki allir hættir að lesa.
Þangað til næst.

5/08/2012

Bananamúffur með kanilostakremi og dýrindis smoothie

Þetta verður titillinn á ævisögu minni.

Annars langaði mig bara til að droppa við til að deila með ykkur undursamlegri uppskrift. Góðum uppskriftum verður að deila, þær mega ekki gleymast í þeim hafsjó af uppskriftum sem til eru. Ef ykkur finnst þessar hérna líta vel út þá ættuði að prófa (og jafnvel ef ykkur finnst þær líta hörmulega út þá ættuði samt að prófa!).

Innihald:
160 g hveiti (2 1/4 bolli)
3/4 tsk matarsódi
1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
1 1/2 bolli stappaðir og vel þroskaðir bananar (ca. 3-4)
1/4 mjólk (í uppskrift stendur buttermilk en ég notaðist við venjulega léttmjólk með 1 tsk af sítrónudropum útí, það virkar sem ágætis staðgengill)
1 tsk vanilludropar
227 g ósaltað smjör (1 bolli)
1 1/3 bolli sykur
2 stór egg
1/2 tsk malaður kanill
1 1/2 tsk dökkt romm (Captain Morgan t.d., má sleppa)

Krem:
1 bolli rjómaostur
227 g ósaltað smjör
5-6 bollar flórsykur (notaði bara 4, fer eftir hvað maður vill hafa þetta sætt)
1/4 tsk salt
1 tsk malaður kanill
1 tsk vanilludropar

Aðferð:
1. Byrja á því að hita ofninn í 177°C og gera bollakökumót tilbúin
2. Í stórri skál skal sigta saman öll þurrefni ásamt kanil og setja svo til hliðar
3. Í annarri skál skal sameina stappaða banana, mjólk, vanilludropa og romm og setja svo til hliðar
4. Í hrærivél skal hræra saman smjör og sykur þangað til að það er orðið létt og ljóst, bætið við eggi, einu í einu og blanda vel á milli eggja
5. Þegar eggin hafa blandast vel skal byrja að bæta þurrefnum og bananablöndu út í sitt á hvað í 3 atrennum, 1/3 í hvert skipti. Endurtaka þangað til allt er orðið vel blandað.
6. Setja skal deig í bollakökumót, fylla skal hvert mót 3/4.
7. Bakið í 18-20 mínútur og kælið í 5 mínútur áður en þær eru teknar af plötunni, leyfið þeim svo að kólna alveg áður en kremið er sett á.
8. Á meðan bollakökurnar eru að bakast er hægt að undirbúa kremið. Hrærið saman rjómaost og smjör þangað til að það er orðið mjúkt, bætið flórsykri við, einum bolla í einu þangað til að ykkur finnst bragðið nógu gott.
9. Bætið síðan salti, vanillu og kanil út í.
10. Þegar bollakökurnar hafa kólnað alveg skal hefjast handa við að setja kremið á þær.

Njótið vel með ísköldu glasi af mjólk.

Ég er orðin algjör smoothies fíkill, þessi hérna er frekar einfaldur.

1 banani
5-7 jarðaber
1/2 bolli bláber
3-4 mangóbitar
Superberries safi frá Berry Company (ca. 200 ml)



Ég er eiginlega orðin svöng eftir allt þetta matartal ... farin að sofa áður en maður gerir einhvern óskunda.

Þangað til næst.

4/04/2012

900-2009!

Ég ætla að nota internetið til að hjálpa elskulegu litlu systur minni, endilega kjósa hana HÉR í síma 900-2009. Hún á það svo innilega skilið! Hún er að syngja Come Together með Bítlunum (en útgáfu Joe Cocker úr Across the Universe) og gerir það fantafokkingvel. Í lokin er svo ein harðkjarna mynd af henni.



900-2009

3/29/2012

WTF

Þeir segja að jafnrétti séð næstum náð. Skilja ekki hvað við erum að væla, a.m.k. megum við kjósa og þurfum ekki að ganga í búrku (jess). Þeir segja að feminísmi sé óþarfur og að þetta sé að verða jafnt, kannski meira að segja aðeins í hina áttina. Þeir segja að femínistar taki hlutina of alvarlega ... séu jafnvel öfgafemínistar. Hvað er öfgakennt við það að benda á staðreyndir? Kallast það ekki raunsæi?

Mér barst til eyrna um daginn tónlist frá FM957 ... vanalega hlusta ég ekki á þá stöð af ýmsum ástæðum en slys gerast. Ég varð fyrir því áfalli að hlusta á Niggas in Paris með Kanye og Jay Z. Þvílík kvenfyrirlitning! Ég fór þá að velta fyrir mér hversu mörg af þeim lögum sem spiluð eru mikið á vinsælustu útvarpsstöðvum og sjónvarpsstöðvum heims fjalli um konur sem hunda, göt, tíkur, eignir, píkur, hórur eða hóti þeim ofbeldi. Niðurstaðan er viðbjóðsleg. Ég gúgglaði bara nokkur af þeim lögum sem hafa verið vinsæl sl. misseri og þetta er bara brotabrot af þeim hafsjó af lögum sem til eru sem fjalla um einmitt þetta.

Ég veit að þetta hefur verið rætt mikið áður og ég veit að þetta er svolítið eins og að hneykslast íslenskum vetri en það eru bara svo margir sem hlusta á þessa tónlist og syngja með og gera sér ekki grein fyrir því hvað þeir eru að syngja, eða gera sér grein fyrir, sjá fyrir sér einhverja heita tík og setja hana ekki í samhengi við mömmu sína, systur sína, vinkonur eða aðrar konur sem þeir elska og virða í lífinu sínu.

Hér fyrir neðan eru nokkur brot, endilega kynnið ykkur þau en ég vara ykkur við, þetta er viðbjóður!

Childish Gambino - Freaks and Geeks
,,An elephant never forgets,
so my dick remembers everything.
Green inside your wallet is that pussy open sesame.
....
And my clique make that dinero so it's time to meet the Fockers
I am running this bitch.
You are just a dog walker."

Kanye ft. Jay Z - Niggas in Paris
She said ,,ye can we get married at the mall?"
I said ,,look you need to crawl 'fore your ball,
come and meet me in the bathroom stall,
and show me why you deserve to have it all."

I got that hot bitch in my home
You know how many hot bitches I own.

David Guetta ft. Akon - Sexy bitch
She's nothing like a girl you've ever seen before.
Nothing you can compare to your neighbourhood hoe.
I'm tryna find the words to describe this girl without being disrespectful.

Taio Cruz - Troublemaker
I saw when you arrived.
Looking like a super model.
Your ass from the side looks like a coke bottle.
I love the way you ride.
Put that thing on full throttle.
So get get get get up on the saddle.

Chris Brown, Lil Wayne ft. Busta Rhymes - Look at me now
Better cuff your chick if you with her, I can get her
And she accidentally slip and fall on my dick.
Ooops I said on my dick,
I ain't really mean to say on my dick
But since we talking about my dick
All of you haters say hi to it.

Eminem - Kill you
Bitch I'ma kill you! You don't wanna fuck with me.
Girls neither - you ain't nuttin but a slut to me.
Bitch I'ma kill you! You ain't got the balls to beef.
We ain't gon' never stop beefin.
I don't squash the beef.
You better kill me!
....
I said you don't wanna fuck with Shady!
Cause Shady will fuckin kill you (ah haha)
I said you don't wanna fuck with Shady!
Cause Shady will fuckin kill you (ah haha)

Ímyndið ykkur nú að þessi ''lög'' séu um mömmu ykkar, systur, dóttur, ömmu eða frænku? Ekki svo skemmtilegir og ''grípandi'' textar lengur.

Segiði svo að baráttunni sé lokið! Þetta er í bandarískum tónlistariðnaði, getiði ímyndað ykkur þau mótandi áhrif sem þessi iðnaður hefur á fólk?

Ugh ... komin með nóg af þessu í bili. Ætla ekki að vera alveg full af viðbjóð áður en ég fer að sofa.

3/11/2012

Sumir dagar...

...eru bara aktífari en aðrir.

Það var einn fagran sunnudagsmorgun sem ég vaknaði með blik í auga og bros á vör (blikið reyndist vera glæra og brosið var frosið fast í slefi). Mig langaði til þess að prófa mig áfram í þynnkueldamennsku (já það er list!). Afraksturinn má sjá hér að neðan.

Beikonvafin egg með mozzarella og piparosti. Kryddað með basil og pipar. Bellissimo. Uppskrift hér.


Bláberjamúffur með bláberjarjóma og ísköldu mjólkurglasi. Slurp. Uppskrift hér.


Dagurinn var svo toppaður með suddalega góðum kjötbollurétt. Uppskrift hér.


Sumir dagar eru bara betri en aðrir. Ég er farin að kunna að meta sunnudaga. Laugardagurinn var líka góður, honum var eitt í allskyns ráp og þef af gömlum bókum (mmm gamlar bækur). Það kennir alltaf ýmissa grasa í Kolaportinu og ég kann alltaf að meta það. Það er bara einhver andi þarna sem mér þykir vænt um. 








Vonandi áttuð þið góða helgi. Minni var eytt í eitt stk. árshátíð og kósí þunnildi með morgunmatnum hér að ofan og heimagerðri pizzu.

Það er sko tekið út með sældinni að vera fullorðin ... yub. Lífið er gott.

Þangað til næst.

3/07/2012

I'm as mad as hell!

Jebb. Ég horfði á myndbandið. Í gær vissi ég ekki hver hann var. Í dag hata ég hann. Þannig virkar lífið með internetinu. Eitthvað sem þú vissir ekki af í gær er orðið að hitamáli í dag.

Eftir að hafa horft á myndbandið 'Kony 2012' ákvað ég að svipast aðeins um á internetinu eftir umræðum um þetta tiltekna myndband.

Barnahermaður er því miður alls ekki nýtt fyrirbæri. Ég skrifað um barnahermenn í BA ritgerð minni hér og hef því kynnt mér málefni barnahermanna ansi vel. Þetta er eitthvað sem að mínu mati hefur ekki fengið næga athygli í fjölmiðlum vestanhafs og því að vissu leyti gott að vakin sé athygli á þessu en svo þegar maður fer að lesa sér meira til er ansi margt gruggugt við samtökin Invisible Children, fjármálin eru ekki 100% opin og skora samtökin lágt á lista fyrir gagnsæi NPO, einungis 31% af innkomu þeirra árið 2011 fór í hjálparstörf og því var síðan enn frekar dreift til Úgönsku ríkisstjórnarinnar, hversu mikið af þessu fer til barnanna í raun og veru?

Hugmyndin er frábær sem slík, það er alltaf gott að vekja til vitundar að stríðsglæpamenn nota börn sem hermenn og kynlífsþræla. En ég held að fólkið sem liggur að baki herferðarinnar sjái ekki alveg pólitísku hliðina. Það að bandarískir hermenn sé fengnir til að styðja við bakið á Úganska hernum þangað til að Kony hefur verið handsamaður lýsir því ágætlega. Þetta bendir til þess að fólkið sem stendur á bakvið herferðina sé hlynnt afskiptasemi Bandaríkjanna og gleymi á sama tíma að vera gagnrýnið á Úgönsku ríkisstjórnina og her hennar, en þau eru á engan hátt góðu gæjarnir í þessum aðstæðum. Úganska ríkisstjórnin er leidd af Yowery Museveni sem hefur verið forseti síðan 1986. Þessi ríkisstjórn hefur stutt það að pynta fanga, kúga aðra stjórnmálaflokka og fjölmiðla. Í borgarastyrjöldinni notaði Yoweri Museveni barnahermenn í her sínum NRA (National Resistance Army) sem nú er her Úganda nema undir öðru nafni. Heimildir um þetta má finna hér. Úganski herinn hefur einnig verið að nota 'draugahermenn' (e. ghost soldiers) sem eru hermenn sem ekki eru á launaskrá, til þess að koma peningum undan sem gerir stríðið auðvitað enn arðbærara fyrir þá. Það er kannski langsótt, en ég er það svartsýn að mér finnst það ekki.

Það fer ekkert á milli mála að stríðsrekstur er arðbær fyrir suma aðila, sérstaklega fyrir stór hagkerfi eins og Bandaríkin og Bretland. Það má velta því fyrir sér hvort að Bandaríkin hafi ekki selt Úganska hernum viðbjóðslega mikið af vopnum.

Hér eru allskyns svör og spurningar um átökin í Úganda og LRA.

Þetta eru bara nokkrir punktar varðandi þessa herferð en mér finnst þeir samt sem áður nógu stórir og alvarlegir til þess að hægt sé að efast um þessa herferð og fólkið á bakvið hana. Sérstaklega hvað varðar stuðninginn við Úganska herinn. Kony er langt frá því að vera eini stríðsglæpamaðurinn.

Hér eru nokkrar heimildir sem ég studdist við auk linkanna sem nú þegar hafa verið birtir:

Michael Kirkpatrick hefur búið í Úganda

Síða sem útlistar fjármál góðgerðarsamtaka

Óstaðfest saga manns frá Norður Úganda

Þetta er falleg hugsun og mér finnst í alvörunni magnað að sjá hvað internetið getur gert. Auðvitað dregur þetta ekki úr því að það er virkileg þörf á því að allir taki sig saman og reyni að skapa betri heim. Ég er öll fyrir hugsjónir og háleita drauma en maður má ekki gleyma því að vera gagnrýninn, það er það helsta sem ég tek úr mínu námi í mannfræði og það helsta sem ég lærði þegar ég var að skrifa BA ritgerðina mína. Ekkert er eins og það sýnist.

Ég vildi samt óska þess að allir tækju sig í alvöru saman, þetta mál sýnir okkur það að við erum fær í allt ef við erum bara samtaka, hverjum er ekki sama um vinstri og hægri, samfylkinguna eða sjálfstæðisflokkinn þegar það eru töluvert stærri og mikilvægari hlutir til að nota (ekki eyða) púðrinu sínu í!

Þetta er eins og Rocky vinur minn sagði.


Finnst ég algjör kúkalabbi að benda svona á þetta, því að þetta er góður málstaður í alvörunni. Þetta er bara svo fjandi mikil pólitík.

Þetta hérna finnst mér asskoti hvetjandi.



2/02/2012

Samfélagsleg hnignun

Þeir eru ófáir hlutirnir sem mér hafa hlotnast með því að gramsa í kössum, skápum, hillum og geymslum, suður með sjó. Meðal þeirra eru ýmsar myndasögur, gamlar Garfield bækur, Mad, Hägar the Horrible og minna þekktar myndasögur eins og Ala Kazot eftir Johnny Hart. Þær eru ekkert nema samfélagsleg ádeila og minna mann á að hlutirnir virðast alltaf vera eins, það bara taka nýjar kynslóðir við hverju hlutverki fyrir sig. Hér fyrir neðan er mynd af einum brandaranum, þarna stendur:

,,We caught this nut streaking through the market place!"
,,For a few brief moments it takes peoples minds of high prices, rationing corrupt government and social decay."
,,Shall I lock him up?"
,,Just his clothes."



Þetta er ekkert voðalega fyndið, ég er ekki að segja það.

Annar brandari er svona:
,,...And so fellow peasants.." - Kóngurinn
,,Notice how smug he is ... not a worry in the world" - Lýður I
,,I remember when he was a nervous wreck." - Lýður II
,,That was before he got the price of eggs up to where it's safe for him to make a speech." - Lýður III
Þessi fannst mér fyndnari (en samt ekkert sérlega fyndinn).

Það sem mér finnst svo magnað við þetta er það að þetta var skrifað 1974 og þetta á jafn vel við núna og þá. Það breytist aldrei neitt, það koma bara nýjir í hvert hlutverk fyrir sig. Lýðurinn verður alltaf lýður og þeir sem ráða munu alltaf fara illa með einhverja. 

Ég vildi samt óska að neytendur væru meira meðvitaðir um það sem þeir kaupa. Ég er ekki að segja að ég sem neytandi kaupi aldrei neitt sem litlar hendur hafa búið til eða þar sem einhver einstaklingur var misnotaður við að framleiða. Ég hef einfaldlega ekki haft tíma til þess að leggjast í þá rannsóknarvinnu sem að það myndi krefjast. 

En nú vitum við að stórfyrirtæki eins og Nike, Coca Cola, Apple, Adidas hafa verið gripin við að misnota starfsfólk sitt, borga því lítið fyrir að vinna óeðlilega mikið og oft við lífshættulegar aðstæður. Samt stoppar það okkur ekki. Við vitum að dýrum er oft slátrað á ómannúðlegan hátt og við vitum að litlar sætar kanínur eru notaðar til að prófa snyrtivörur sem við notum. Þetta finnst okkur ógeðslegt og værum ekki tilbúin til að gera þetta sjálf en af því að það er búið að þessu þegar við fáum vöruna svona settlega í hendurnar þá er það allt í lagi, þá friðum við samviskuna með að henda klinki (samt yfirleitt bara silfri) í Amnesty International eða ABC barnahjálp baukana. 

Við búum öll saman á þessari jörð og eigum öll að hafa sömu tækifærin og sömu réttindin til heilbrigðs og hamingjuríks lífs. Við teljum okkur trú um að það sé ekkert sem við getum gert, svona þurfi þetta bara að vera og við upplifum okkur vanmáttug. Skiljanlega, en það er hellingur sem maður getur gert til þess að gera heiminn að betri stað.  

Það er hægt að vera meðvitaður neytandi og viljandi sneiða framhjá vörum og fyrirtækjum sem við vitum að koma illa fram við starfsfólk sitt (ég sagði ekki að það yrði auðvelt). Það er hægt að sauma sín eigin föt, kaupa frekar tréleikföng sem smíðuð eru af hinum ýmsu handverksmönnum. 

Hvað er sanngjarnt við það að litlar hendur þræli fyrir leikfangi í Kína sem litlar hendur leika sér síðan með hér á Íslandi? Sömu líffæri, sömu þarfir og þrár, en aðeins eitt barnið fær að vera barn. Af því að það fæddist á Íslandi. Við þessu er hægt að sporna, máttur fjöldans er okkar sterkasta vopn, ef við erum ekki ánægð með heiminn í kringum okkur og okkar nánasta umhverfi þá er hægt að breyta því! Þú getur byrjað á sjálfri/sjálfum þér og vonað að aðrir fylgi. Ef ekki, þá veistu samt að þú gerðir allt sem þú gast til þess að einhver manneskja út í heimi þyrfti ekki að þjást og líða illa svo þú gætir átt merkjavöru eða flott leikföng eða gott svitasprey.

Ég er bara að segja ... ég nenni ekki að vera vanmáttug lengur.

Yir og út.
- Margrét

1/22/2012

Af stórum strákum og fínum stelpum

Ég hef aldeilis gleymt mér í lífinu sl. vikur. Áhuginn hefur bara ekki verið til staðar. En í ljósi nýliðins hneyksli finn ég mig knúna til að leggja mín lóð á vogarskálarnar. Gefa ykkur mín tvö sent ef þið viljið.

Semsagt, ef þú ert með píku þá máttu fá jarðaberjaís og ef þú fæddist með typpi þá færðu vanilluís. Ef þú girnist eitthvað annað en það sem otað er að þér og þínu kyni ertu skrítinn. Enn ein leiðin til að aðgreina kynin, eins og að kynfærin séu ekki andskotans nóg. 

Sumir (lesendur í kommentkerfi DV og fólk á Facebook) kunna að segja ,,þetta skiptir engu máli, þetta er bara ís" eða ,,oh yfir öllu er hægt að væla". 

Við þessu segi ég ,,jú, þetta skiptir máli og nei ég er ekki að væla". 

Afhverju? 

Jú sjáðu til, í gegnum tíðina hafa verið gerðar ótal rannsóknir á því hvernig menningin steypir einstaklinga í ákveðin mót, hver menning hefur sína hugmynd um það hvernig stelpa á að vera og hvernig strákur á að vera. Þetta gefur litlum áhrifagjörnum einstaklingum ákveðna hugmynd um hvað er eðlilegt og hvað sé það ekki. Crystal Smith birti rannsókn sína á kynbundinni markaðsetningu í fyrra. Hún bjó til svokölluð orðaský yfir þau orð sem birtast oftast í auglýsingum sem beinast sérstaklega að stelpum og strákum. Orðin voru tekin úr auglýsingum á vegum Hot Wheels, Matchbox, Transformers, Beyblades, Bratz, Barbie, Easy Bake Oven, My Little Pony og Littlest Pet Shop. Efri myndin sýnir orðin sem beindust að strákunum og neðri myndin sýnir orðin sem beindust að stelpunum.



Það er hægt að halda því fram að fyrirtæki auglýsi bara það sem virki og að þetta sé það sem börnin raunverulega vilja en bleikir glimmerhestar eru ekki kóðaðir í X litning og bláar byssur í Y litningin. Þetta er skapað í menningunni. Bregðast börnin við auglýsingum vegna þess að það er í blóðinu þeirra eða vegna þess að þeim er kennt það frá blautu barnsbeini að kynin eiga að vera svona og hinsegin. Strákar borða blátt og stelpur borða bleikt. Það er eðlilegt og ekkert annað. Emmess segir það. Ein af ástæðunum fyrir því að það er mikilvægt að berjast gegn þessum staðalímyndum er sú að það er ekki mikil umburðarlyndi fyrir þeim börnum sem ekki falla í þessa staðalímynd. Stelpur sem vilja leika sér með bíla og hamast og strákar sem vilja hugga dúkkur og leika sér með glimmerhesta eru ekki eðlilegar/ir. Þau eru strákastelpa og stelpustrákur. 

Að móta stelpur og stráka í bleikt og blátt er ein leið til þess að skapa afbrigðilegheit og það á ekki að líðast á 21. öldinni. Bara alls ekki á neinum öldum aldrei! 

Ef þið skoðið orðskýin nánar þá sjáiði ákveðið þema. Stelpur eru einhyrningar og regnbogar og strákar eru ofbeldi og völd. Sjáiði mynstur? Veltiði því svo fyrir ykkur af hverju eiginmaður ykkar getur ekki deilt tilfinningum sínum með ykkur. Kannski af því að hann var alinn upp til þess að sýna þær ekki, herða sig og halda áfram. 

Viðurkennið það. Ef strákur og stelpa detta á sama tíma, fá jafn slæm sár á hnéin. Þið hlaupið frekar til að aðstoða stelpuna. Því strákurinn þarf að herða sig. Það er hans hlutverk.

Hvað ef honum langaði bara til að fá einhvern til að hugga sig og ekki vera harður? Vera bara mjúkur og tilfinningaríkur. Þá er hann gay! Alveg klárlega. 

Nei ég er komin með andskotans nóg af þessu kjaftæði. Bleikur og blár ís er bara ein leið til þess að hefta ungdóminn. Við erum nú þegar með hillur í Hagkaup sem líta út fyrir að það hafi einhyrningur ælt á þær glimmeri og regnbogum fyrir stelpurnar og heilu rekkana af leiðum til að kenna strákum að drepa. Ísinn er bara brotabrot af öllu því ömurlega sem krökkum er boðið uppá í viðbjóðslegri markaðsetningu nú til dags.

Og þetta skiptir máli! Það að fá að vera sá sem maður vill vera skiptir máli. Það að fá að vera frjáls frá almenningsáliti og einelti skiptir máli.