1/22/2012

Af stórum strákum og fínum stelpum

Ég hef aldeilis gleymt mér í lífinu sl. vikur. Áhuginn hefur bara ekki verið til staðar. En í ljósi nýliðins hneyksli finn ég mig knúna til að leggja mín lóð á vogarskálarnar. Gefa ykkur mín tvö sent ef þið viljið.

Semsagt, ef þú ert með píku þá máttu fá jarðaberjaís og ef þú fæddist með typpi þá færðu vanilluís. Ef þú girnist eitthvað annað en það sem otað er að þér og þínu kyni ertu skrítinn. Enn ein leiðin til að aðgreina kynin, eins og að kynfærin séu ekki andskotans nóg. 

Sumir (lesendur í kommentkerfi DV og fólk á Facebook) kunna að segja ,,þetta skiptir engu máli, þetta er bara ís" eða ,,oh yfir öllu er hægt að væla". 

Við þessu segi ég ,,jú, þetta skiptir máli og nei ég er ekki að væla". 

Afhverju? 

Jú sjáðu til, í gegnum tíðina hafa verið gerðar ótal rannsóknir á því hvernig menningin steypir einstaklinga í ákveðin mót, hver menning hefur sína hugmynd um það hvernig stelpa á að vera og hvernig strákur á að vera. Þetta gefur litlum áhrifagjörnum einstaklingum ákveðna hugmynd um hvað er eðlilegt og hvað sé það ekki. Crystal Smith birti rannsókn sína á kynbundinni markaðsetningu í fyrra. Hún bjó til svokölluð orðaský yfir þau orð sem birtast oftast í auglýsingum sem beinast sérstaklega að stelpum og strákum. Orðin voru tekin úr auglýsingum á vegum Hot Wheels, Matchbox, Transformers, Beyblades, Bratz, Barbie, Easy Bake Oven, My Little Pony og Littlest Pet Shop. Efri myndin sýnir orðin sem beindust að strákunum og neðri myndin sýnir orðin sem beindust að stelpunum.Það er hægt að halda því fram að fyrirtæki auglýsi bara það sem virki og að þetta sé það sem börnin raunverulega vilja en bleikir glimmerhestar eru ekki kóðaðir í X litning og bláar byssur í Y litningin. Þetta er skapað í menningunni. Bregðast börnin við auglýsingum vegna þess að það er í blóðinu þeirra eða vegna þess að þeim er kennt það frá blautu barnsbeini að kynin eiga að vera svona og hinsegin. Strákar borða blátt og stelpur borða bleikt. Það er eðlilegt og ekkert annað. Emmess segir það. Ein af ástæðunum fyrir því að það er mikilvægt að berjast gegn þessum staðalímyndum er sú að það er ekki mikil umburðarlyndi fyrir þeim börnum sem ekki falla í þessa staðalímynd. Stelpur sem vilja leika sér með bíla og hamast og strákar sem vilja hugga dúkkur og leika sér með glimmerhesta eru ekki eðlilegar/ir. Þau eru strákastelpa og stelpustrákur. 

Að móta stelpur og stráka í bleikt og blátt er ein leið til þess að skapa afbrigðilegheit og það á ekki að líðast á 21. öldinni. Bara alls ekki á neinum öldum aldrei! 

Ef þið skoðið orðskýin nánar þá sjáiði ákveðið þema. Stelpur eru einhyrningar og regnbogar og strákar eru ofbeldi og völd. Sjáiði mynstur? Veltiði því svo fyrir ykkur af hverju eiginmaður ykkar getur ekki deilt tilfinningum sínum með ykkur. Kannski af því að hann var alinn upp til þess að sýna þær ekki, herða sig og halda áfram. 

Viðurkennið það. Ef strákur og stelpa detta á sama tíma, fá jafn slæm sár á hnéin. Þið hlaupið frekar til að aðstoða stelpuna. Því strákurinn þarf að herða sig. Það er hans hlutverk.

Hvað ef honum langaði bara til að fá einhvern til að hugga sig og ekki vera harður? Vera bara mjúkur og tilfinningaríkur. Þá er hann gay! Alveg klárlega. 

Nei ég er komin með andskotans nóg af þessu kjaftæði. Bleikur og blár ís er bara ein leið til þess að hefta ungdóminn. Við erum nú þegar með hillur í Hagkaup sem líta út fyrir að það hafi einhyrningur ælt á þær glimmeri og regnbogum fyrir stelpurnar og heilu rekkana af leiðum til að kenna strákum að drepa. Ísinn er bara brotabrot af öllu því ömurlega sem krökkum er boðið uppá í viðbjóðslegri markaðsetningu nú til dags.

Og þetta skiptir máli! Það að fá að vera sá sem maður vill vera skiptir máli. Það að fá að vera frjáls frá almenningsáliti og einelti skiptir máli.