3/23/2013

2 tegundir af vegan muffins

Mér finnst gaman að baka og eitt af því sem ég pældi í þegar ég ákvað að prófa vegan var hvort að ég myndi nú geta bakað, ég hafði kannski bara smá oggupoggulitlar áhyggjur af því. Ég þurfti þess sko aldeilis ekki, það er til aragrúi af góðum vegan bakstursuppskriftum.

Ég ætla að deila með ykkur 2 sem ég hef prófað, finnst gott að grípa í þær þegar ég er ekki alveg viss hvað skal fá mér gott með kaffinu um helgar.

Bláberjahafrakanilmúffur (eða eitthvað álíka þjált) ca. 12 stk


1. Hræra saman 1 1/2 bolla af hveiti, 1/2 af bolla hrásykri, 1/2 bolla af höfrum, 1 tsk salt, 2 tsk af vínsteinslyftidufti, klípu af kanil og bæti svo út í 3/4 bolla soya/möndlumjólk, 1/4 bolla olíu og 1 bolla af bláberjum (fersk eða frosin) 2. Hrært saman, sett í form og bakað við 190°C í 25-30 mínútur. Rosalega mjúkar og góðar.

Bananakanilhaframúffur (jebb, elska kanil) ca. 12 stk


1. Blanda saman 1 bolla af heilhveiti, 1/2 bolla af höfrum, 1 tsk vínsteinslyftidufti, 1 tsk matarsóda, 1/2 tsk salt og klípu af kanil 
2. Hræra svo saman í annarri skál, 1/2 bolla af púðursykri og 1/2 bolla af olíu, bæta síðan 2-3 stöppuðum bönunum við það


3. Hræra síðan hveitiblönduna út í bananablönduna og blanda vel, setja í form og baka við 190°C í 15 til 20 mínútur. 

Hrikalega mjúkar og góðar.


Svo þið sjáið, það eru ekki bara baunir og fræ sem maður þarf að stöffa í smettið á sér, það er hægt að gæða sér á ljúffengum laugardagsbakstri bara litlum breytingum og ímyndunarafli.

Þangað til næst.
Múffukveðjur.

No comments: