Síður

8/04/2011

Blekkingar Hollywood

Þær eru ófáar, í raun svo margar að ógerlegt er að fara yfir þær í einum pistli. Ein sérstök blekking hefur alltaf vakið áhuga minn. Í þættinum Pretty Little Liars segir frá fjórum ungum dömum sem eiga að vera í kringum 16-17 ára aldurinn í litlu smáþorpi í Bandaríkjunum. Þær deita gæja og gellur og eiga bræður og systur á svipuðum aldri þannig að það er mikið um unglinga í þessum þáttum. Það sem er áhugavera við þetta er að sú sem þátturinn snýst allur um er fædd 1996, hún er rétt nýorðin 15 ára. Elsta leikkonan sem á að vera 16 ára er fædd 1979 og er því 32 ára. Það hlýtur að teljast undarlegt að vera 14 ára (hún var það þegar þættirnir byrjuðu) að vinna með manneskju sem er helmingi eldri en þú og eiga að vera á svipuðum aldri. Þetta er bara ein sjúk blekking sem Hollywood heldur að okkur. Ein af mörgum.

Þoli ekki þegar ég klikka í hugsunarleysi á linka sem leiða mig inn á bleikt.is, menn.is, lífið á vísi eða smartland Mörtu (hrollur). Mér byrjar ósjálfrátt að líða verr með sjálfa mig, enda kannski ekki skrítið þegar ,,frétta"titlarnir eru

,,Dregur úr hrukkum og strekkir húðina"
,,Sumir eru í klikkuðu formi"
,,Hörkukroppur korter eftir fæðingu"
,,Heidi Klum hleypur af sér spikið" (ha ha ha)
,,10 ára fyrirsæta slær í gegn" (ok ha?!)
,,Svona heldur Gaga sér í formi"
,,Fáðu seiðandi augnaráð á einni mínútu"
,,Fegurðarleyndarmál Bar Rafaeli" (eflaust að drekka vatn og hreyfa sig)
,,Vertu súperflott á 5 mínútum"

Útlit, útlit, útlit ... svo á sömu síðu má finna uppskriftir að kökum sem eru minnst 12.000 hitaeiningar og réttlætingar fyrir því af hverju þú mátt alveg við því að baka þér eina svona og éta yfir Sex and the City.

Andskotinn.

Þangað til næst.

No comments: